top of page
  • Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

2. degi í Leirumótinu lokið


Öðrum degi Leirumótsins er lokið. Margir keppendur náðu að bæta skorið sitt frá því í gær enda var veðurblíða í allan dag, sólríkt og smá hafgola. Daníel Ísak Steinarsson úr Golfklúbbnum Keili stal senunni í dag og spilaði á 66 höggum eða sex höggum undir pari. Hann byrjaði hringinn af miklum krafti og fékk örn, fugl, par, par og fugl á fyrstu fimm holunum. Daníel Ísak spilaði á 70 höggum í gær og er hann því á 8 höggum undir pari eftir tvo hringi. Í öðru sæti í karlaflokki er Hákon Örn Magnússon úr GR en hann hefur spilað hringina tvo á 140 höggum eða fjórum undir pari. Hann spilaði hringinn í dag á 69 höggum eða þremur undir pari og endaði hann hringinn á tveimur fuglum. Pétur Jaidee og Logi Sigurðsson eru efstir af heimamönnunum jafnir í 29. sæti á 151 höggi.


Í kvennaflokki er gríðarleg spenna en munurinn á fyrstu 10 keppendunum eru þrjú högg. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR í efsta sæti eftir að hafa spilað hringina tvo á 153 höggum (76-77) eða 9 höggum yfir pari. Í öðru sæti, einu höggi á eftir Jóhönnu Leu, eru jafnar Arna Rún Kristjánsdóttir úr GM (78-76) og Eva Kristinsdóttir (76-78). Fjóla Margrét úr GS er í baráttunni en hún hefur leikið hringina tvo á 156 höggum og er jöfn í 5. sæti.

Ræst verður út í fyrramálið á síðasta degi mótsins af 1. og 10. teig og verður byrjað að ræsa út kl. 7:30 og síðustu ráshóparnir fara út um tveimur klukkustundum síðar. Við hvetjum alla til að koma út í Leiru og horfa á okkar bestu kylfinga keppa til sigurs í Leirumótinu.

Staðan í karlaflokki eftir tvo hringi:

  1. Daníel Ísak Steinarsson, GK: 136 högg (70-66) -8

  2. Hákon Örn Magnússon, GR: 140 högg (71-69) -4

  3. Kristófer Karl Karlsson GM: 142 högg (71-71) -2

Aron Emil Gunnarsson GOS: 142 högg (70-72) -2

Staðan í kvennaflokki eftir tvo hringi:

  1. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir GR: 153 högg (76-77) +9

  2. Arna Rún Kristjánsdóttir GM: 154 högg (78-76) +10

  3. Eva Kristinsdóttir GM: 154 högg (76-78) +10


Fjóla Margrét GS, að loknum öðrum hring Leirumótinu.

140 views0 comments

Comments


bottom of page