top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Bréf frá framkvæmdastjóra

Sælir GS félagar,

Nú fer að líða að lokun Hólmsvallar og rétt að staldra aðeins við til að fara yfir hin ýmsu mál sem við koma vellinum okkar. Á heildina litið var sumarið ágætt og góður veðurkafli kom loks í ágúst og má segja að hann hafi bjargað að miklu leyti sumrinu fyrir okkur.

Hólmsvöllur í Leiru var að okkar mati í góðu standi í sumar. Flatir voru tappagataðar s.l. haust og sandaðaar. Í vor kom það í ljós að þriðja flötin okkar fór nokkuð illa út úr vetrinum og var nánast 80% dautt gras á henni. Tekin voru sýni úr gríninu og kom í ljós að seltumagn í því var um sjötíufalt meira en það á að vera. Hafist var handa við að minnka seltu í flötinni og yfirsá í hana. Um mitt sumar var hún orðin þokkaleg og loks í ágúst orðin sambærileg öðrum flötum á vellinum. Flatirnar voru síðan djúpgataðar nú í haust og sandaðar til þess að undirbúa þær fyrir veturinn. Við teljum okkur vita afhverju seltumagn í þriðja gríninu jókst svona mikið eins og raun bar vitni og  teljum okkur tilbúin að verja það í vetur fyrir ágangi sjávar.

Eins og þið hafið eflaust tekið eftir þá erum við byrjaðir að fylla í tjörnina á fjórðu brautinni, en við telum nauðsynlegt að gera það til að þurrka upp svæðið, en tjörnin á fjórðu hefur virkað sem „matari“ fyrir vatn á fjórðu braut undanfarin ár.  Stefnt er að því að ljúka þessari framkvæmd í vetur.

Við höfum einnig fengið golfvallararkitekt til að koma að vinna með okkur um að skipuleggja og hanna fjórðu brautina upp á nýtt og er sú vinna við það að hefjast. Munum við kynna þær breytingar á félagsfundi um leið og þær verða klárar.

Aðrar framkvæmdir sem unnar voru í sumar: – Göngustígur við 2. flöt lagfærður. – Göngustígur við 7. flöt lagfærður. – Göngustígur við 9. flöt lagfærður. – Nýr göngustígur við 12. teig. – Göngustígur við 14. flöt lagfærður. – Ný pútt- og vippflöt við 1. teig (tekin í notkun næsta vor) – Nýr göngustígur við 18. flöt.

Fyrirhugaðar framkvæmdir í vetur: – Ný æfingaglompa við nýja púttflöt – Nýr grasteigur á æfingasvæði – Frágangur við 4. tjörn (loka) Karginn var látinn vaxa á nokkrum svæðum í sumar, t.d. á milli 1. og 18., á milli 17. og 18. og vinstra megin á 2. braut. Með þessu erum við að rækta upp þessi svæði sem eru mjög gisin og er það okkar von að með þessu munum við ná að rækta þau betur upp og koma í veg fyrir að þau „brenni“ í mestu þurrkunum á sumrin. Hafa ber í huga að þessi svæði eru viðkvæmustu svæði vallarins í þurrkatíðum.

Heilt á litið voru ekki mikil vandamál til staðar á vellinum í sumar, þ.e.a.s. graslega séð. Nú á haustdögum fengum við smá sveppasýkingu í flatir en sú sýking virtist bara hætta þegar leið á haustið og gerði flötum engan skaða. Við getum sagt að völlurinn fari í sínu besta ástandi inn í veturinn sem lofar góðu fyrir næsta vor.

Ég fæ reglulega spurningar frá félagsmönnum um hina og þessa hluti varðandi völlinn okkar og hef svarað þeim öllum, og ef þú félagi góður hefur einhverjar spurningar varðandi völlinn okkar þá skaltu ekki hika við að hafa samband við mig í síma eða tölvupósti.

Gunnar Þór Jóhannsson framkvæmda- og vallarstjóri GS 846-0666 gtj@gs.is

7 views0 comments

Comentários


bottom of page