Íslandsmót unglinga fór fram hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar um helgina og átti GS þrjá fulltrúa, Fjólu Margréti, Loga Sigurðsson og Breka Frey Atlason. Logi spilaði í flokki drengja, 19-21 árs og spilaði betur með hverjum deginum en byrjaði á 78 höggum, svo 76 högg og endaði svo á pari vallarins eða 72 höggum. Flottur árangur hjá Loga sem skilaði honum 7. sætinu.
Breki Freyr spilaði í flokki drengja 14 ára og yngri. Þetta var fyrsta reynsla hans á Íslandsmóti og endaði hann í 25. sæti. Góð reynsla fyrir Breka sem kemur sér vel á næsta ári.
Fjóla Margrét spilaði í flokki stúlkna 14 ára og yngri. Hún spilaði mjög stöðugt alla dagana og fór alla hringina þrjá á 76 höggum eða samtals 228 höggum og vann þar með sinn annan Íslandsmeistaratitil í sumar. Eva Kristinsdóttir frá GM var í öðru sæti á 232 höggum. Alveg hreint frábær árangur hjá Fjólu Margréti og óhætt að segja að allar æfingarnar hennar eru að skila sér. Hún hefur því komið með tvo íslandsmeistaratitla til klúbbsins á árinu en hún vann einnig Íslandsmót unglinga í holukeppni í sama flokki.
Að leik loknum í gær voru stigameistarar sumarsins krýndir og sigraði Fjóla Margrét þar með miklum yfirburðum enda sigraði hún í fjórum mótum af þeim fimm sem haldin voru.
Við í GS erum ákaflega stolt af Fjólu og hlökkum mikið til að fylgja henni áfram á hennar vegferð í átt að settum markmiðum.
Comments