Þó að hefðbundin starfssemi liggi niðri yfir köldustu vetrarmánuðina er margt að gerast og undirbúningur fyrir vorið í fullum gangi. Það er ljóst að GS hefur hreint út sagt frábæra félagsmenn í sínum röðum sem eru tilbúnir til að aðstoða klúbbinn á svo margan hátt.
Í fyrra fengum við gott fólk til að taka að sér að gera klúbbhúsið okkar huggulegt og var gaman að sjá hve vel tókst til og hve margir félagsmenn voru ánægðir með það framtak.
Ekki hefur heldur verið setið auðum höndum í vetur og mætti til að mynda stjórn klúbbsins eina helgina í Leiruna og hreinsaði til á báðum hæðum í klúbbhúsinu, í geymslum og á háaloftinu.
Undanfarnar vikur hafa svo nokkrir rafvirkjar mætt á svæðið og tekið alla lýsingu í gegn, í anddyrinu, í salnum og í afgreiðslunni.
Netsérfræðingar hafa verið að taka netið í gegn hjá okkur og hjálpuðu okkur m.a. að koma vefmyndavélinni góðu í gagnið aftur.
Duglegar konur komu og hreinsuðu til í eldhúsinu, búið er að fara yfir gömul skjöl af háaloftinu og raðað og skipulagt eins og best verður á kosið.
Síðustu helgi komu nokkrir smiðir og byrjuðu á því að stækka enn meira pallinn okkar við klúbbhúsið. Það verk klárast svo vonandi á næstu vikum og munu félagsmenn þá geta setið úti og notið góða veðursins í Leirulogninu :)
Búninganefnd hefur verið að skoða fatamál klúbbsins og verður nýr búningur GS kynntur á vormánuðum.
Gífurlega verðmæt vinna sem þessir félagar eru að gefa klúbbnum og svo sannarlega hægt að segja að framtíð GS sé björt með svona félagsmenn innanborðs.
Starfsmenn vallarins hafa einnig haft nóg að gera og vinna hörðum höndum að því að undirbúa opnun og skipuleggja sumarið svo völlurinn geti verið með sínu besta móti fyrir kylfinga. Meðfylgjandi myndir voru teknar í góða veðrinu um daginn sem við vonum að fari að sýna sig sem fyrst aftur... Á verkefnalista vetrarins hefur einnig verið að sinna viðhaldi á vélaskemmunni, búið er að mála veggi og gólf og verður næsta verkefni að einangra loftið. Flott vinna sem er í gangi hjá þeim.
Það er gaman að sjá hvað félagsmenn hafa verið duglegir að nýta sér vetrarvöllinn okkar en í janúar voru 97 manns skráðir á rástíma, í febrúar voru það 319 manns og það sem af er mars hafa 315 manns skráð sig á rástíma. Alltaf fleiri og fleiri sem passa að skrá sig á Golfbox í hvert skipti sem þeir nýta rástíma.
Ef allt gengur eftir verður hægt að opna æfingasvæðið á næstu dögum og svo völlinn/sumarflatir vonandi í framhaldinu. Það verða sendar tilkynningar þegar það verður.
Áfram GS
Comments