Það er gott að eiga vini og ómetanlegt að eiga sanna og góða vini. Góður vinur er til staðar fyrir þig þegar þú þarft á honum að halda og stendur með þér í blíðu og stríðu.
Það er því afar ánægjulegt að tilkynna að framkvæmdastjórn Golfklúbbs Suðurnesja hefur ákveðið að bjóða vinum okkar úr Golfklúbbi Grindavíkur (GG) að leika Hólmsvöll árið 2024 án endurgjalds. Allir félagsmenn GG sem greiða félagjöldin fyrir árið 2024 til klúbbsins verða því heiðursfélagar Golfklúbbs Suðurnesja árið 2024.
Eins og kemur fram í fréttabréfi GG sem klúbburinn sendi frá sér í gærkvöldi hefur klúbburinn verið í samtali við almannavarnir og þá aðila sem koma að skipulagningu á jarðskönnun fyrir Grindavíkursvæðið. Áætlað er á næstum vikum verður Húsatóftavöllur skannaður og gögnin unnin út frá því.
Það ríkir því mikil óvissa með framhaldið hvort Húsatóftavöllur fái hreinlega tækifæri til að opna á sínum hefðbundna opnunartíma um miðjan apríl. En á meðan verður Hólmsvöllur í Leiru meira en reiðbúinn til að taka á móti sínum vinum frá Golfklúbbi Grindavíkur.
Komentáre