Leirumótinu hjá Golfklúbbi Suðurnesja lauk nú í þessu eftir vindasaman og krefjandi lokahring. Hólmsvöllur var í mjög fínu ásigkomulagi þessa vikuna.
Sigurvegari mótsins í karlaflokki var Sigurður Arnar Garðarsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar eftir að hafa átt besta hring dagsins er hann spilaði á pari vallarins. Sigurður Arnar spilaði gott golf allt mótið og endaði mótið á þremur höggum undir pari. Í öðru sæti eftir jafna og spennandi keppni varð Birgir Björn Magnússon úr Golfklúbbnum Keili. Birgir Björn endaði hringina þrjá á tveimur höggum undir pari, einu höggi á eftir Sigurði. Í þriðja sæti varð svo Íslandsmeistarinn í höggleik Kristján Þór Einarsson í Golfklúbbi Mosfellsbæjar á einu höggi yfir pari.
Heimamaðurinn Logi Sigurðsson endaði í fjórða sæti á fjórum höggum yfir pari.
Staða efstu kylfinga í karlaflokki:
1. Sigurður Arnar Garðarsson (GKG) 213 högg, -3 (72-69-72)
2. Birgir Björn Magnússon (GK): 214 högg,-2 (72-69-73)
3. Kristján Þór Einarsson (GM): 217 högg, +1 (69-71-77)
4. Logi Sigurðsson (GS): 220 högg, +4 (75-71-74)
Í kvennaflokki stóð Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur uppi sem sigurvegari með jafna spilamennsku allt mótið. Hún kláraði lokahringinn á besta skori dagsins í kvennaflokknum á 75 höggum. Ragnhildur endaði hringina þrjá á níu höggum yfir pari níu höggum á undan næsta keppanda. Í öðru sæti hafnaði Berglind Björnsdóttir einnig úr Golfklúbbi Reykjavíkur á 18 höggum yfir pari. Í þriðja sæti var svo Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss á 235 höggum eða 19 höggum yfir pari.
Heimadaman Fjóla Viðarsdóttir endaði í fjórða sæti.
Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:
1. Ragnhildur Kristinsdóttir (GR): 225 högg, +9 (74-76-75)
2. Berglind Björnsdóttir (GR): 234 högg, +18 (74-79-81)
3. Heiðrún Anna Hlynsdóttir (GOS): 235 högg, +19 (76-80-79)
T4. Fjóla Margrét Viðarsdóttir (GS): 238 högg, +22 (75-82-81)
T4. Anna Júlía Ólafsdóttir (GKG): 238 högg, +22 (79-80-79)
Þegar skoðuð er tölfræði mótsins var meðalskor kylfinganna í mótinu 79,39 högg, 40,34 högg á fyrri níu holunum og svo 39,05 á seinni. Keppendur fengu 11 erni og 505 fugla.
Erfiðasta holan í mótinu var 13. holan með meðalskor 3,73 högg. Léttasta holan þetta mót var 18. holan með meðalskor upp á 5,04 högg.
Golfklúbbur Suðurnesja vill þakka keppendum, starfsmönnum, sjálfboðaliðum, vertanum og gestum fyrir þátttökuna í Leirumótinu og við hlökkum til að halda mótið aftur að ári.
Kommentare