top of page
  • Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Pistill framkvæmdastjóra -- Viðhorfskönnun Golfklúbbs Suðurnesja

Kæru félagsmenn,


Mig langar að byrja á því að segja takk innilega fyrir viðtökurnar á þessum fyrstu dögum í starfi mínu. Það er mikil tilhlökkun hjá mér að fá að kynnast enn fleiri félagsmönnum á komandi dögum, vikum og mánuðum. Eftir fyrstu kynni mín af klúbbnum sést greinilega að innan Golfklúbbs Suðurnesja ríkir mikil ástríða og áhugi hjá félagsmönnum að golfklúbbnum vegni vel.


Góður rekstur er grundvöllur fyrir allt annað sem gert er hjá golfklúbbnum—hvort sem er viðhald eða frekari uppbygging á vellinum eða þjónusta við félagsmenn. Það eru ekki nema tvo ár síðan golfklúbburinn hætti loksins að reiða sig á bankayfirdrátt fyrir daglegum rekstri. Samhliða því hefur klúbburinn varið töluverðum fjármunum i fjárfestingu á búnaði til að viðhalda gæðunum á Hólmsvelli. Þann grunn sem fyrrverandi stjórnir og framkvæmdastjóri náðu í rekstri tek ég við og ber ég þeim þakkir fyrir þeirra framlag til klúbbsins.


Með tilkomu golfherma er golfið orðið að heilsársíþrótt en ekki lengur bara stundað á sumrin. Golfið er vettvangur þar sem vinir geta styrkt vinasambönd og fjölskyldur notið samverustundar. Samheldnin í stjórn, störfum framkvæmastjóra og annarra starfsmanna eru mikilvægir þættir í rekstri íþróttafélaga og hjá klúbbnum mun markið vera sett hátt. En áður en að við setjum okkur metnaðarfull markmið langar mig að heyra frá ykkur kæru félagsmenn.

Nú er ég búinn að búa til viðhorfskönnun Golfklúbbs Suðurnesja sem ég mun senda til allra skráða félagsmanna. Í starfi mínu mun ég leggja ríka áherslu á endurgjöf, hvort sem hún sé í formi hróss eða á annan uppbyggilegan hátt sem leiðir til þróunar eða breytingar. Með endurgjöf er tekið samtal og þegar samtöl eru tekin fæðast tækifæri til umbóta. Í þessari könnun eru tuttugu spurningar sem fara um víðan völl varðandi klúbbinn okkar og hér kæru félagsmenn er ykkar tækifæri til að vera þátttakandi og hluti af samtalinu. Stefnan er að endurtaka könnunina í haust til að eiga samanburð og hafa hana svo árlega eftir það.


Þegar könnuninni lýkur (hún verður sennilega opin í 2 vikur) verður rýnt í niðurstöðurnar bæði með starfsmönnum og stjórn. Svörin frá ykkur til okkar eru nafnlaus og er það mín innsta von að til okkar berist margar tillögur sem hægt verður að skoða og meta hvernig við getum best brugðist við og bætt þjónustustigið og upplifunin af golfklúbbnum. Á ákveðnum tímapunkti mun ég deila niðurstöðunum með félagsmönnum.


Golfklúbbur Suðurnesja verður 60 ára árið 2024 og mörg spennandi verkefni framundan til að gera afmælisárið að því besta. Ykkar rödd í þessari könnun er mikilvægur liður í þeirri vegferð og að gera Golfklúbb Suðurnesja að betri golfklúbb.


Fyrir hönd stjórnarinnar langar okkur til að óska öllum félagsmönnum nær og fjær gleðilegs árs og miklar þakkir fyrir árið 2022. Þorrinn er genginn í garð og einungis 94 dagar þangað til Sumardagurinn fyrsti verður en þann dag (ef ekki fyrr) er stefnt á að opna inn á sumar flatir—setjum markið hátt, saman!


Með vinsemd og virðingu að leiðarljósi,

Sverrir Auðunsson

Framkvæmdastjóri


564 views0 comments

Comments


bottom of page