top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Tvö glæsileg Íslandsmót að baki

Síðustu tvær helgar hefur Golfklúbbur Suðurnesja verið gestgjafi tveggja glæsilegra GSÍ-móta, fyrst var það Íslandsmót unglinga í höggleik og nú síðast Íslandsmótið í holukeppni. Bæði mót heppnuðust ágætlega, sér í lagi Íslandsmótið í holukeppni sem fram fór við frábærar aðstæður í Leirunni nú um helgina, veðrið lék kylfinga hins vegar grátt fyrri helgina þegar unglingarnir voru að keppa.

Að baki svona móti liggur mikil vinna, undirbúningur vallarstarfsmanna við að gera Hólmsvöll jafn góðan og raun ver vitni er mikil og þátttaka sjálfboðaliða (sem margir eyddu megninu af sínum vökutíma til að aðstoða) var vel metin. Hæst ber að nefna félaga eins og Snæbjörn Guðna Valtýsson, Sigríði Erlingsdóttur, Jón B. Guðnason, Jón Jóhannsson, Valdimar Birgisson, Svein Björnsson og Nóa Sebastían Gunnarsson, þetta fólk og fleiri félagar gera það mögulegt að halda svona mót og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra framlag – sama á við um starfsfólk GS sem stóð langar vaktir í mótunum.

Ljósmynd: Kylfingur.is/pket

Þó ber skugga á þetta mótahald – það er umgengnin í mótunum og aðdraganda þeirra. Kylfingar sem tóku þátt í þessum Íslandsmótum, áhorfendur og aðrir sem að þeim komu voru allir sammála um að ástand Hólmsvallar væri til fyrirmyndar. Að baki því liggur mikil vinna hjá vallarstjóra og starfsmönnum klúbbsins, því þykir mér dapurlegt að sjá til margra af þessum frábæru kylfingum og hvernig þeir umgangast golfvöllinn og klúbbhúsið. Það er nefnilega eins og margir af þessum bestu og/eða efnilegustu kylfingum landsins (sem eru fyrirmyndir yngri og upprennandi kylfinga) séu yfir það hafnir að leggja torfusnepla í kylfuför, setja sand í kylfuför á teigum eða gera við boltaför á flötum. Áberandi þótti mér hve margir voru að dröslast með kerrurnar sínar uppá teiga, nú veit ég ekki hvort það sé til siðs í þeirra klúbbum en það hefur aldrei tíðkast í Leirunni. Sama á við um klúbbhúsið, þegar maður er búinn með pulsuna er ekki venjan að krumpa bréfið bara saman og henda því á borðið til að auka álagið á starfsfólk veitingasölunnar (þetta var áberandi í unglingamótinu). Ég held að við sem stöndum að golfi á Íslandi ættum að einbeita okkur að því að innræta keppnisfólkinu okkar betri siði. Kannski þurfum við að líta í eigin barm, erum við að sýna þessa framkomu sjálf á golfvellinum? Lögum við boltaför eða rökum glompur? Kylfingar! Tökum höndum saman og bætum umgengnina á golfvöllum landsins, það er svo svekkjandi fyrir þá sem á eftir koma að lenda t.d. í djúpu skófari í glompunni – við þekkjum það flest sjálf. Auðvitað á ofangreint ekki við um nándar nærri alla keppendur – en of marga.

Ég vil að lokum þakka öllum sem tóku þátt í Íslandsmótunum í Leiru 2018 fyrir skemmtileg mót og óska nýkrýndum Íslandsmeisturum og klúbbum þeirra til hamingju með árangurinn.

Með golfkveðju, Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður Golfklúbbs Suðurnesja

0 views0 comments

Comments


bottom of page