Unglingamót Hótel Service KEF Airport – nýtt líf á Hólmsvelli eftir nær þrjá áratugi
- Golfklúbbur Suðurnesja
- Jun 24
- 3 min read
Sunnudaginn 22. júní fór fram fyrsta opna unglingamótið á Hólmsvelli í Leiru í nær þrjá áratugi – síðasta slíka mótið var Pepsi-Cola opið unglingamót sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma. Nýja mótið var haldið í samstarfi Golfklúbbs Suðurnesja og Hótel Service KEF Airport, fyrirtækis í eigu hjónanna Davíðs Jónssonar og Evu Daggar Sigurðardóttur.
Upphafið að mótinu má rekja til samtals Davíðs við Örn Ævar Hjartarson, formann mótanefndar GS og fyrrum Íslandsmeistara bæði í höggleik og holukeppni. Þeir félagar voru saman í sveit GS sem vann Íslandsmeistaratitil sveitakeppni GSÍ karla árið 1996.
„Þegar Davíð nefndi við mig hugmyndina um að blása lífi í unglingamót á Hólmsvelli, kviknaði strax hlý tilfinning – við ólumst sjálfir upp í þessari umgjörð og það var eitthvað eðlilegt og fallegt við að endurvekja slíkt fyrir næstu kynslóð,“ sagði Örn, sem dvaldi á Spáni en fylgdist með mótinu frá fjarlægð.
Davíð og Eva eiga tvo efnilega kylfinga sem hafa keppt bæði hérlendis og erlendis, og þekkja vel til þess hvernig umgjörð móta getur haft áhrif á áhuga og framgang ungra kylfinga. Þegar Davíð benti á að skort hefði verið á opnum mótum fyrir unglinga utan GSÍ-mótaraðar, var strax ákveðið að grípa tækifærið og skapa nýjan vettvang á Hólmsvelli – í góðu samstarfi við GS.
Keppnin fór fram með „shotgun“-fyrirkomulagi í tveimur forgjafaflokkum – bæði í punktakeppni og höggleik – og þátttakendur voru 43 talsins, fæddir á árunum 2007 til 2014. Forgjöfin spannaði allt frá 1,6 upp í 50,3 sem sýnir hversu fjölbreyttur hópur keppenda mætti til leiks.
Það var sannarlega vel í lagt: Allir þátttakendur fengu teiggjöf, fríar æfingakúlur og pizzuveislu að loknu móti. Tíu verðlaun voru veitt í hvorum flokki fyrir sig og hlutu bikar og glæsileg verðlaun. Þá voru veitt sérstök verðlaun fyrir nándarhögg á öllum par 3 brautum – þar á meðal dýrmætur golfkíkir – og verðlaun fyrir lengsta högg. Einnig voru dregin út aukaverðlaun meðal keppenda, og fengu því allir keppendur verðlaun.
Veðrið lék við keppendur og stemningin var einstaklega jákvæð. Foreldrar og aðstandendur fylgdu börnunum sínum af áhuga – og jafnvel nokkrar ömmur létu sig ekki vanta í Leiru til að hvetja sitt fólk áfram. Það var virkilega gleðilegt að sjá hversu margir fjölskyldumeðlimir tóku þátt með nærveru sinni.
Einn þeirra sem fylgdist með var Björgvin Sigmundsson, meistaraflokkskylfingur GS og faðir Daníels Orra sem var að taka þátt í sínu fyrsta 18 holu golfmóti.„Mótið heppnaðist frábærlega – veðrið lék við okkur og það fyllti mig ákveðinni nostalgíu að sjá son minn taka sín fyrstu skref í unglingamóti í Leirunni,“ sagði Björgvin eftir mótið.
Við, hjónin á bak við Hótel Service KEF Airport, ásamt Golfklúbbi Suðurnesja, erum stolt af því að hafa hrundið þessu verkefni af stað. Þegar litið er til mótsdagsins er ljóst að þetta framtak á fullt erindi inn í framtíðina. Stefnt er að því að mótið vaxi og dafni – og að sögn Davíðs og Evu Daggar er markmiðið næsta ár að taka á móti vel yfir 100 keppendum!
Verðlaunahafar – Opið unglingamót Hótel Service KEF Airport
Y flokkur – Höggleikur
Benjamín Snær Valgarðsson – GKG – 70 högg
Snorri Rafn William Davíðsson – GS – 72 högg
Ingi Rafn William Davíðsson – GS – 76 högg
Skarphéðinn Óli Önnu Ingason – GS – 78 högg
Kári Siguringason – GB – 83 högg
Y flokkur – Punktakeppni
Kári Siguringason – GB – 45 punktar
Hanna Karen Ríkharðsdóttir – GKG – 40 punktar
Ingi Rafn William Davíðsson – GS – 39 punktar
Snorri Rafn William Davíðsson – GS – 38 punktar
Benjamín Snær Valgarðsson – GKG – 37 punktar
X flokkur – Höggleikur
Andri Steinn Róbertsson – GS – 90 högg
Einar Þór Sævarsson – GS – 93 högg
Kolfinnur Skuggi Ævarsson – GS – 94 högg
Sigurður Markús Sigurðarson – GR – 96 högg
Steinn Atlason – NK – 97 högg
X flokkur – Punktakeppni
Viktor Leó Elíasson – GS – 47 punktar
Daníel Orri Björgvinsson – GS – 45 punktar
Einar Þór Sævarsson – GS – 37 punktar
Andri Steinn Róbertsson – GS – 36 punktar
Steinn Atlason – NK – 35 punktar
Nándarverðlaun
5. hola – Hanna Karen Ríkharðsdóttir – GKG – 180cm
9. hola – Daníel Örn Gunnarsson – GS – 63cm
12. hola – Jóhann Gunnar Jónsson – GS – 450cm
16. hola – Daníel Árni Bergmann – GR -330cm
Lengsta upphafshögg á 18. braut.
Aron Leo Gunnarsson– GOS

Commentaires