Íslandsmót golfklúbba í unglingaflokkum er lokið en mótin fóru fram hjá Golfklúbbi Selfoss, Flúðum og á Hellu. GS átti lið í flokkum undir 21 árs og undir 14 ára.
14 ára og yngri sveitin okkar spilaði á Flúðum og voru það Daniel Orri Björgvinsson, Ingi Rafn William Davíðsson, Skarphéðinn Óli Önnu Ingason og Kolfinnur Skuggi Ævarsson sem spiluðu fyrir hönd golfklúbbsins.
Sveitin var í 11. sæti af 14 liðum eftir 18 holu höggleik og spilaði þar með í riðli um 9-15. sæti. Liðið gerði sér lítið fyrir og sigraði alla holukeppnisleikina með glæsibrag og sigraði þennan riðil með stæl og endaði þar með í 9. sæti.
21 árs og yngri spilaði á Selfossi og voru það Auðunn Fannar Hafþórsson, Ásgrímur Sigurpálsson, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, Logi Sigurðsson, Snorri Rafn William Davíðsson og Sveinn Andri Sigurpálsson sem fengu það hlutverk í ár að keppa fyrir sveit GS.
Eftir höggleikinn var sveitin í 7. sæti og gat því endað í 1-7. sæti. Í holukeppninni gerði liðið jafntefli við GR, vann svo GA og GKG 3-0. Bráðabana þurfti á milli GS og GR hvort liðið myndi spila um íslandsmeistaratitilinn og tapaðist sá bráðabani á 4. holu. Brons leikurinn var á móti GK og tapaðist hann einnig í bráðbana eftir mikla dramatík og niðurstaðan 4. sæti af 13 liðum sem er fínn árangur þrátt fyrir mikil vonbrigði eftir lokadaginn.
GS vill óska keppendum til hamingju með árangurinn og liðin voru sjálfum sér og GS til mikils sóma.
コメント