top of page

LÖG GOLFKLÚBBS SUÐURNESJA

Samþykkt 29. nóvember 2023 á aðalfundi Golfklúbbs Suðurnesja

1. GREIN

Félagið heitir Golfklúbbur Suðurnesja og skammstöfun þess er GS. Heimili félagsins og varnarþing er að Hólmsvelli í Leiru, Garði.

2. GREIN

GS er íþróttafélag og markmið þess er rekstur golfvallar, félagsaðstöðu, kynning, iðkun og efling golfíþróttarinnar. Klúbburinn rekur golfvöll með tilheyrandi mannvirkjum og gengst fyrir golfæfingum og golfmótum ásamt annarri félagsstarfsemi sem tengist golfíþróttinni. Golfklúbbur Suðurnesja skal vera aðili að Golfsambandi Íslands.

3. GREIN

Um inngöngu í GS skal sækja rafrænt eða skriflega til framkvæmdastjóra. Öllum er heimil þátttaka í klúbbnum. Stjórn klúbbsins skal sjá til þess að byrjendur fái leiðsögn kennara eða fullgilds félaga og sæki kynningu á siðareglum, leikreglum og öðrum reglum er félagar lúta.
Stjórn skal sjá til þess að staðar-, umgengnis- og siðareglur séu að jafnaði aðgengilegar fyrir félagsmenn og aðra á áberandi stað í klúbbhúsi.


Stjórn klúbbsins er heimilt að víkja félagsmanni úr klúbbnum vegna alvarlegra agabrota. Brottvikningin tekur strax gildi og skal borin undir aðalfund ef viðkomandi fellst ekki á hana.

4. GREIN

Aðalfundur hefur æðsta úrskurðarvald í málefnum golfklúbbsins. Hann skal haldinn í nóvember eða desember ár hvert í klúbbhúsinu í Leiru nema stjórnin ákveði annan fundarstað. Boða skal til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara og nægir að boða til fundarins á vefsíðunni golf.is og heimasíðu Golfklúbbs Suðurnesja (gs.is).


Stjórnin getur boðað til almenns félagsfundar ef henni þykir þurfa, en jafnframt skal boða til almenns félagsfundar ef minnst 20% félagsmanna fara skriflega fram á það við stjórn klúbbsins um tiltekið fundarefni. Berist slík krafa skal félagsfundur haldinn innan fjögurra vikna frá því að krafan berst og fundinn skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund.

 

Stjórn klúbbsins gerir tillögu um fundarstjóra á fundinum, en fundarmenn geta einnig gert tillögu um annan fundarstjóra og verður þá kosið um hann ef ágreiningur er.

5. GREIN

Störf aðalfundar eru:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár.
3. Reikningar lagðir fram og skýrðir.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Atkvæðagreiðsla um reikningana.
5. Lagabreytingar.
6. Lögð fram tillaga um gjaldskrá.
7. Kosning formanns.
8. Kosning þriggja stjórnarmanna.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
10. Önnur mál.

6. GREIN

Afl atkvæða ræður á aðalfundi. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn GS 18 ára og eldri sem greitt hafa árgjald þess starfsárs sem er að ljúka og mættir eru á aðalfund. Þeir eru einnig kjörgengir til stjórnarkjörs.


Tilkynningar um framboð til stjórnar þurfa að hafa borist skrifstofu GS minnst viku fyrir aðalfund.

7. GREIN

Reikningsár golfklúbbsins er 1. nóvember til 31. október ár hvert.

8. GREIN

Gjaldskrá skal ákveðin á aðalfundi. Stjórn félagsins getur ákveðið að lækka eða fella niður árgjöld félagsmanns vegna veikinda, atvinnuleysis eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Stjórn golfklúbbsins getur hvenær sem er starfsársins kynnt tillögu til félagsmanna um gjaldskrá næsta árs með fyrirvara um samþykki aðalfundar.


Greitt eða umsamið árgjald veitir rétt til að spila á Hólmsvelli frá 1. janúar það ár sem gjaldið er greitt og til og með 31. janúar á næsta ári.
Stjórn ákveður gjöld sem utanfélagsmenn greiða fyrir vallarafnot og henni er heimilt að leyfa vallarafnot án endurgjalds ef sérstaklega stendur á.

9. GREIN

Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún tekin fyrir á sérstökum fundi sem stjórnin boðir til með sama hætti og reglulegan aðalfund. Stjórn klúbbsins gerir tillögu um fundarstjóra á fundinum, en fundarmenn geta einnig gert tillögu um annan fundarstjóra og verður þá kosið um hann ef ágreiningur er.

 

Fundurinn er ályktunarhæfru ef minnst helmingur félagsmanna sækir fundinn og tillagan fær gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana. Mæti ekki nægilega margir skal boða til nýs fundar innan þriggja vikna. Sá fundur er ályktunarhæfur án tillits til fundarsóknar og fær tillaga gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana.

10. GREIN

Stjórn golfklúbbsins skipa sjö menn; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Þá skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn skoðunarmann til vara.


Stjórnarmenn golfklúbbsins skal kjósa á aðalfundi. Kosning skal vera leynileg fari einhver fundarmanna fram á það.

Kjósa skal formann sérstaklega til eins árs og þrjá meðstjórnendur til tveggja ára í senn, þannig að aldrei gangi fleiri en þrír meðstjórnendur úr stjórninni.

Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnin skal funda a.m.k. mánaðarlega. Stjórnin getur tekið ákvarðanir um málefni klúbbsins ef meirihluti stjórnarmanna mætir á fundinn og aðrir stjórnarmenn hafa sannanlega verið boðaðir með tölvupósti eða á annan hátt. Hún kemur fram fyrir hönd golfklúbbsins og tilnefnir fulltrúa á Golfþing GSÍ. Stjórn golfklúbbsins setur reglur um umgengni á golfvellinum.

11. GREIN

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra klúbbsins og annað fastráðið starfsfólk. Bera þarf ráðningar upp á löglega boðuðum stjórnarfundi og þarf meirihluti fundarins að samþykkja ráðninguna. Allar tímabundnar ráðningar eru í höndum framkvæmdastjóra, s.s. ráðningar vallarstarfsmanna, starfsfólks golfskála o.þ.h.

12. GREIN

Allt starfsfólk Golfklúbbs Suðurnesja skal undirrita ráðningarsamning sem tiltekur starfsskyldur þess áður en það hefur störf.

13. GREIN

Framkvæmdastjóri klúbbsins skal hafa umsjón með daglegum rekstri og eignum klúbbsins. Ekki er heimilt að stofna til skuldar eða greiða fé út af reikningum félagsins nema með samþykki gjaldkera eða framkvæmdastjóra. Ef um meiriháttar lántöku er að ræða skal fyrst afla samþykkis stjórnar og síðan bera það undir löglega boðaðan félagsfund (sjá 4. gr.).


Skoðunarmenn reikninga skulu hafa virkt eftirlit með eignum og skuldum félagsins. Gjaldkeri og framkvæmdastjóri skulu veita þeim allar upplýsingar um eignir og skuldir félagsins. Framkvæmdastjóri skal veita stjórn mánaðarlega, eða oftar ef þurfa þykir, upplýsingar um rekstur klúbbsins.

14. GREIN

Verkaskipting stjórnar:
Formaður er aðal forsvarsmaður stjórnar og golfklúbbs. Hann kemur fram fyrir þeirra hönd þegar við á, boðar stjórnarfundi og stýrir þeim.

Ritari færir fundargerðir stjórnarfunda.

Gjaldkeri sér um fjármál klúbbsins, innheimtu félagsgjalda og greiðslu reikninga. Hann sér um að bókhald sé fært og endurskoðað fyrir aðalfund.

15. GREIN

Nefndir


Mótanefnd sér um öll golfmót á vegum klúbbsins og, í samráði við vallarnefnd, gerð staðarreglna. Nefndin er “The Committee” skv. reglum R&A Rules Limited um golfmót.

Vallarnefnd annast almennt eftirlit með golfvellinum, æfingasvæði og húsakosti klúbbsins. Hún tekur ákvarðanir um framkvæmdir og viðhald leikvallar, húsakosts o.þ.h. Vallarstjóri skal sitja í vallarnefnd.

Afreksnefnd sér um samskipti við íþróttastjóra klúbbsins, foreldrafélag og keppendur. Nefndin stýrir æfinga- og keppnisstarfi GS í samráði við íþróttastjóra.

Aga- og forgjafarnefnd tekur fyrir öll agabrot sem kylfingar í GS gerast sekir um. Hún heldur einnig utan um forgjafarmál félaga í GS. Framkvæmdastjóri skal sitja í aga- og forgjafarnefnd.

Ofantaldar fastanefndir skulu jafnan vera skipaðar 3-5 félagsmönnum GS og skal stjórnarmaður sinna formennsku í hverri nefnd fyrir sig. Heimilt er að víkja frá þessari reglu telji stjórn rök standa til þess. Stjórn skal skipa formenn þessara nefnda fyrir desemberlok ár hvert.
Stjórn getur einnig skipað sérstakar nefndir og skulu þær starfa samkvæmt sérstakri starfslýsingu sem stjórnin setur.

16. GREIN

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til þess.

 

Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórninni eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.

bottom of page