top of page
  • Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Frétt um aðalfund 2022

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fór fram 23. nóvember í klúbbhúsi félagsins í Leiru. 42 félagar sóttu fundinn.


Ólöf Kristín Sveinsdóttir, formaður GS bauð fundargesti velkomna og stakk upp á Björk Guðjónsdóttur sem fundarstjóra fundarins og Guðrún Þorsteinsdóttir var ritari.


Ólöf Kristín fór svo yfir skýrslu stjórnar og stiklaði á stóru. Veðrið var okkur á suðvestur horninu ekki hliðhollt í ár frekar en í fyrra og endurspeglaðist starfið í heild af því, færri hringir voru spilaðir á árinu frá því í fyrra, færri tóku þátt í mótum o.s.frv. Það var haldið áfram með fjárfestingar, fleiri golfbílar bættust í hópinn ásamt tólum og tækjum fyrir völlinn og eldhúsið. Einnig var keyptur annar golfhermir svo félagar hafa nú tvo nýja golfhermi til að nýta yfir vetrarmánuðina. Við fengum ljósleiðarann loksins í Leiruna og svo í haust var settur upp farsímasendir svo bæði net- og farsímasamband er komið í gott lag.


Gott samstarf við bæjarfélögin hélt áfram og sá Reykjanesbær m.a. um að skipta um þak á klúbbhúsinu sem var heilmikið verk og var virkileg þörf á.


Eftir að Ólöf hafði lokið við að kynna skýrslu stjórnar fór Sigurpáll Geir Sveinsson yfir skýrslu íþróttastjóra. Hann tilkynnti kylfinga ársins en það voru aftur þau Fjóla Margrét og Logi Sigurðsson sem fengu þessa nafnbót fyrir árið 2022.


Fjárhagur klúbbsins er góður. Tekjur fyrir starfsárið 2021-2022 voru 130.496.398 kr. og gjöldin voru 125.036.820 kr. Afskriftir 3.000.000 kr. og fjármagnsliðir -881.997 kr. Hagnaður ársins var því 4.577.581 kr. Stjórn er ánægð með þessa afkomu þar sem mikið var um fjárfestingar og veðrið var ekki að vinna með okkur. Það var einnig stefna stjórnar að skuldsetja klúbbinn í algjöru lágmarki svo flest allt sem búið er að kaupa hefur verið greitt. Karitas Sigurvinsdóttir, gjaldkeri klúbbsins, fór yfir ársreikninginn en hann er að finna á heimasíðunni. Fundurinn samþykkti reikninginn.

Tillaga að félagsgjöldum fyrir 2023 var lögð fram og samþykkt en þau verða eftirfarandi:


0-14 ára: 0 kr.

15-18 ára: 15.500 kr.

19-26 ára: 51.500 kr.

27-70 ára: 103.000 kr.

71 árs og eldri: 72.000 kr.

Hjónagjald: 180.500 kr.

Nýliðagjald: 62.000 kr.

Aðilar sem búa utan Suðurnesja eða aukaklúbbsaðild: 82.500 kr.

Fyrir þá sem ganga frá greiðsluskráningu fyrir 1. febrúar og greiða gjald fyrir 27 ára og eldri ásamt nýliðagjaldi fá eitt kaffikort innifalið í gjaldinu.

Nýr formaður klúbbsins var kosinn, Sveinn Björnsson.

Eftirfarandi fjórir stjórnarmeðlimir voru kosnir á síðasta ári til tveggja ára og sitja því áfram:


Karitas Sigurvinsdóttir

Sveinn Björnsson

Sigurður Sigurðsson

Örn Ævar Hjartarson

Þar sem Sveinn Björnsson verður formaður var lagt til að Páll Marcher Egonsson komi í hans stað og var hann kosinn í eitt ár.

Eftirfarandi fjórir félagar voru svo kosnir nýir meðlimir í stjórn til næstu tveggja ára:


Róbert Sigurðarson

Guðrún Þorsteinsdóttir

Ólöf Einarsdóttir

Gunnar Ellert Geirsson

Sesselja Árnadóttir og Kristinn Óskarsson voru kosnir skoðunarmenn og Valur Ketilsson til vara.

Fundi var slitið kl. 19.15






212 views
bottom of page