GS kláraði Íslandsmótið með sigri – áframhaldandi framför í 1. deild karla
- Golfklúbbur Suðurnesja

- Jul 26
- 2 min read
Íslandsmót golfklúbba í 1. deild karla lauk í dag á Leirdalsvelli GKG þar sem Golfklúbbur Suðurnesja innsiglaði viku sína með 3,5–1,5 sigri á Golfklúbbi Vestmannaeyja. Með þeim úrslitum tryggðum við okkur 6. sætið – eitt sæti ofar en síðustu tvö ár – og áframhaldandi veru í deild þeirra bestu. Vestmannaeyingar féllu niður í 2. deild.
Keppnin fór fram við krefjandi aðstæður – bæði veðurfarslega og skipulagslega. Á fyrsta degi beið liðið yfir fimm klukkustundir milli leikja, og daginn eftir voru leikmenn kallaðir fljótleg út aftur eftir morgunleik – með síðasta munnbitann varla gleypan. Þrátt fyrir slíkt ójafnvægi hélt liðið einbeitingu, sýndi skipulagða spilamennsku og barðist af krafti í öllum viðureignum.
Eftir tap gegn Keili í fyrstu umferð (5–0), mættum við Íslandsmeisturum Golfklúbbs Reykjavíkur í annarri umferð og gerðum þeim erfitt fyrir, þó leikurinn tapaðist 3,5–1,5. Í kjölfarið komu sigrar á GM og GV, og naumt tap gegn Selfossi. Við náðum að nýta sterk upphafshögg og koma okkur í fleiri sóknarfæri úr 60–80 metrum, sem gaf betri tækifæri á að vinna holur. Í einstaka leikjum vantaði örlítið upp á að tryggja púttin eða nýta sköpuð færi – en heilt yfir var spilamennskan traust og baráttan til fyrirmyndar.
Það sem skildi liðin að voru smáatriðin. Munurinn á efri og neðri hlutanum var ótrúlega lítill. Efstu fimm liðin – GR, GKG, GK, GA og GM – koma úr klúbbum með öfluga innviði, tækniaðstöðu og æfingamöguleika allt árið um kring sem styðjast við sterkan fjárhagslegan bakhjarl frá sínu sveitarfélagi. Það gerir árangur okkar enn sætari.
Við mættum til leiks með líklega elsta meðalaldur mótsins – tvo fimmtuga – en sýndum engu að síður styrk, jafnvægi og seiglu í öllum leikjum. Allir í liðinu skiluðu inn stígi sem sýnir breiddina.
Að halda sæti okkar í efstu deild golfklúbba ár eftir ár er ekki aðeins afrek. Það er líka tækifæri. Tækifæri fyrir samfélagið okkar til að stíga inn og styðja við íþrótt sem skilar árangri, samstöðu og fyrirmyndum. Ef við viljum halda áfram að keppa á hæsta stigi, verðum við líka að byggja innviði í samræmi við metnaðinn.
Við getum verið stolt af framgöngunni í Leirdalnum – og enn stoltari af því hvert við erum komin. Með stöðugleika, samheldni og smáum skrefum áfram – erum við á réttri leið.
Áfram GS – og takk fyrir baráttuna!











Comments