top of page

Meistaramót GS hafið – metþátttaka og sterk byrjun

  • Writer: Golfklúbbur Suðurnesja
    Golfklúbbur Suðurnesja
  • Aug 14
  • 1 min read

Meistaramót Golfklúbbs Suðurnesja hófst miðvikudaginn 13. ágúst í björtu og stilltu veðri sem bauð upp á kjöraðstæður fyrir fyrsta keppnisdag. Hefðin hélt sér – þrír síðustu klúbbmeistarar karla stigu á 1. teig til að hefja leik: Sveinn Andri Sigurpálsson (2024), Logi Sigurðsson (2023) og Guðmundur Rúnar Hallgrímsson (2022).


Þátttakan er í sögulegu hámarki – alls 150 félagsmenn taka þátt, sem er met og byggir ofan á metár 2024. Strax á fyrsta teigi var stemningin í hámarki þegar Logi setti upphafshöggið í stöngina, og fylgdi hann því eftir með pútti fyrir örn.. Logi lauk hringnum á glæsilegum 64 höggum, aðeins einu höggi frá vallarmeti Gunnlaugs Árna Sveinssonar sem sett í fyrra á Íslandsmótinu í golfi.


Í kvennaflokki hefur Sara Guðmundsdóttir tryggt sér forystuna í baráttunni um klúbbmeistaratitilinn. Í 1. flokki karla er Ingi Rafn Davíðsson efstur eftir fyrsta daginn og í 2. flokki leiðir Davíð Skarphéðinsson.


Fyrsti dagurinn var helgaður höggleik, en fimmtudaginn 14. ágúst bætast við punktakeppnisflokkarnir. Keppnisfyrirkomulagið fyrstu þrjá dagana er tvær shotgun ræsingar – kl. 10 og kl. 16. Laugardaginn 16. ágúst verður blönduð ræsing: shotgun kl. 8 að morgni og hefðbundin ræsing frá kl. 12, sem tryggir að allir komist út á völlinn í tæka tíð fyrir lokahófið um kvöldið.


Við óskum öllum keppendum góðs gengis og skemmtunar á komandi dögum – og hlökkum til áframhaldandi spennu í Meistaramótinu.


ree

 
 
 

Comments


bottom of page