top of page
  • Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Samantekt mótanefndar GS fyrir árið 2020


Sælir ágætu félagsmenn GS.


Eftir frábært sumar í Leirunni tók ég saman nokkrar tölur sem heyra undir mótanefnd og mig langaði að deila með ykkur.


Stigamót

Í sumar voru haldin 12 stigamót þar sem 978 kylfingar tóku þátt. Að meðaltali tóku 80 kylfingar þátt í hverju móti, allt frá 54 upp í 117 þátttakendur. Í stigamótunum er keppt bæði í karla- og kvennaflokki og veitt verðlaun fyrir efstu 3 sætin í punktakeppni hvors flokks fyrir sig og svo fyrir besta skor - auk þess sem nándarverðlaun á par 3 holum eru veitt. 275 einstaklingar (kennitölur) tóku þátt í stigamótunum í sumar. Svandís Þorsteinsdóttir stóð uppi sem stigameistari kvenna 2020 og Samúel Óskar Júlíusson Ajayi varð stigameistari karla.

Mótin voru styrkt af 12 fyrirtækjum sem fengu nafn sitt hengt við sitt mót og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir rausnarlegan styrk.


Bikarkeppni GS

Bikarkeppnin(holukeppni) var haldin eins og venjulega þar sem 66 kylfingar tóku þátt. Það er gaman að segja frá því að í ár var biðlisti í mótið og þurftu nokkrir að spila sig inn. Sigurvegari bikarkeppninnar varð Ólafur Hrólfsson eftir að hafa sigrað Marc McAusland í hörkuspennandi úrslitaviðureign.


Geysisdeildin

Geysisdeildin (liðakeppni) fór fram í annað sinn og stóð lið HS bræðra uppi sem sigurvegari annað árið í röð eftir úrslitaviðureign við lið Forsetanna.


Meistaramót GS

Meistaramót GS var á sínum stað og fór fram 06.–11. júlí og tóku 126 kylfingar þátt. Mótið fór fram með miklum ágætum og keppendur voru sjálfum sér og GS til sóma. Laufey Jóna Jónsdóttir stóð uppi sem GS meistari kvenna og Róbert Smári Jónsson GS meistari karla.


GSÍ mót

GS tók að sér að halda stigamótaröð GSÍ 5.-7.júní þar sem 129 af bestu kylfingum landsins tóku þátt. Einnig sá GS um að halda Íslandsmót unglinga í holukeppni 14. -16. ágúst þar sem 151 kylfingar tóku þátt. Í báðum þessum mótum sýndu keppendur sín bestu tilþrif og sýndu að framtíð golfíþróttarinnar er björt á Íslandi. Fjöldi sjálfboðaliða hjálpuðu til við framkvæmd mótanna en það er einfaldlega þannig að framkvæmd þessara móta er flókin og útheimtir að sem flestir komi að þessu svo hlutirnir gangi snurðulaust fyrir sig. Okkur tókst vel til, þessi mót fóru mjög vel fram og er það ekki síst að þakka þeim sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg.

Samanlagt voru haldin 28 keppnismót á vegum GS þar sem 2422 kylfingar tóku þátt, þar af 1318 í opnum mótum. Því miður varð svolítið endasleppt með haustmótin í ár vegna Covid 19 og náðist aðeins að halda tvö haustmót.


Ekki er hægt að láta þess ógetið að í öllum þessum mótum koma 27 styrktaraðilar að og nokkrir styrktu fleiri en eitt mót. Án þeirra væri ekki hægt að halda þessi mót með þeim glæsibrag sem raunin er og kunnum við þeim hinar bestu þakkir.


Mótanefnd GS vill þakka öllum þátttakendum keppnismóta GS fyrir þátttökuna í sumar og öllum þeim sjálfboðaliðum og starfsfólki sem hafa liðsinnt okkur við mótin. Jafnframt óskar mótanefnd öllum sigurvegurum til hamingju með árangurinn.


Við hlökkum til að hittast næsta vor 2021 við keppni og leik.


John S. Berry

Formaður mótanefndar GS







156 views
bottom of page