top of page

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja 2025

  • Writer: Golfklúbbur Suðurnesja
    Golfklúbbur Suðurnesja
  • Nov 28
  • 3 min read

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fór fram miðvikudaginn 26. nóvember í golfskálanum á Hólmsvelli. Mæting var ágæt og fór fundurinn fram í góðum og jákvæðum anda. Eftir að Sveinn Björnsson, formaður GS, hafði sett fundinn og tilnefnt Friðjón Einarsson sem fundarstjóra og Guðrúnu Þorsteinsdóttur sem fundarritara, var gert stutt hlé svo gestir gætu notið glæsilegs jólahlaðborðs sem Hlynur á Nítjánda framreiddi.


Ársreikningur og rekstur


Skýrsla stjórnar og Ársreikningur voru kynnt á fundinum. Rekstur ársins 2024–2025 markar eitt af sterkustu rekstrarárum klúbbsins síðustu þrjá áratugi. Í skýrslu stjórnar má sjá þróun rekstrartekna og rekstrarhagnaðar frá 1995–2025. Ef þrjú óregluleg atriði eru undanskilin (1996 – framlag frá ÍRB, 2003 – söluverð eigna og 2023 – leiðrétting á afskriftum) má glöggt sjá að samanlagður rekstrarhagnaður frá aldamótum fram til Covid-tímabilsins var neikvæður, en þróunin hefur snúist við síðustu fimm árin.


Helstu tölur ársins

  • Rekstrartekjur: 155,1 m.kr.

  • Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA): í sögulegu hámarki m.a. vegna fjárfestingarstyrkja fyrirtækja og rekstrarstyrks frá Reykjanesbæ

  • Hagnaður ársins: 14,1 m.kr. (1,1 m.kr. árið 2024)


Auknar tekjur, hagkvæmari rekstur og sterk nýting aðstöðu félagsins skiluðu sér í jákvæðu sjóðstreymi á árinu. Handbært fé í lok árs er sterkt miðað við umfang starfseminnar og gefur GS aukið svigrúm til uppbyggingar, fjárfestinga og viðhalds, ef rekstrartekjur 2026 haldast á sambærilegum stað.


Nýting vallar og félagsmál


Hólmsvöllur naut mikillar nýtingar á árinu og var opinn 221 dag á sumarflötum. Alls voru skráðir 22.180 rástímar, sem er um 8.000 fleiri en árið áður. Þar af voru 18.301 rástímar félagsmanna, og var völlurinn vel nýttur í öllum aldurshópum. Kylfingar í aldurshópnum 19–26 ára spiluðu flesta hringi per félagsmann (nánar í skýrslu stjórnar).


Félagsmönnum fjölgaði áfram og eru nú 1.056 talsins, sem gerir GS að níunda fjölmennasta golfklúbbi landsins. Fjölgunin hefur verið hvað mest í yngri aldurshópum og í fjaraðild. Þessi þróun sést skýrt í rekstrartekjum, rástímum og samanburði við aðra golfklúbba á Suðurnesjum – öll greiningin kemur fram í skýrslu stjórnar.


Á æfingasvæðinu var einnig metár, þar sem slegnir voru yfir 538.000 boltar. Unnið verður áfram að úrbótum sem bæta endurskil bolta og umgengni á svæðinu.


Gjaldskrá 2026


Aðalfundurinn samþykkti gjaldskrá fyrir árið 2026:

  • Almenn félagsgjöld hækka um 5% og verða 115.000 kr.

  • Börn 0–14 ára greiða áfram 0 kr. og hefur sá hópur vaxið á árinu með metþátttöku í vetrarstarfi klúbbsins

  • Nýliðagjöld haldast áfram hagstæð og styðja við fjölgun nýrra kylfinga

  • Fjaraðild og aukaklúbbsaðild eru einnig samkeppnishæf í samanburði við aðra golfklúbba, og þróun nokkurra golfklúbba kemur fram í skýrslu stjórnar


Mótahald


Á árinu hélt GS úti fjölbreyttu mótahaldi, m.a.:

  • Hjóna- og parakeppni Diamond Suites (í sjötta sinn)

  • Fyrsta opna unglingamótið á Hólmsvelli í nær þrjá áratugi

  • Meistaramót GS og fjölda innanfélagsmóta

  • Tvö GSÍ mót á sömu helgi – stærsta liðakeppnismót sem fram hefur farið á Íslandi


Á fundinum voru kynnt drög að mótaskrá 2026. Þar kemur fram að GS hyggst áfram halda GSÍ mót á Hólmsvelli, líkt og undanfarin ár, og þannig halda áfram að gegna mikilvægu hlutverki í mótahaldi á landsvísu.


Stærsta breytingin milli ára er sú að Meistaramót GS færist úr ágúst í júlí. Ástæðan er sú að Golfsamband Íslands hefur fært Íslandsmót golfklúbba af hefðbundinni júlí-dagsetningu yfir í ágúst – á þeim tíma sem Meistaramót GS hefur verið haldið síðustu tvö ár.


Kvennahópur GS afhenti klúbbnum gjöf að verðmæti 300.000 kr. til kaupa á upplýsingaskjá í anddyri golfskálans – klúbburinn þakkar þeim kærlega fyrir frábært framtak.


GS sendi keppendur og lið í öllum aldurshópum á árinu og bætti við sig tveimur Íslandsmeistaratitlum:

  • Fjóla Margrét – Íslandsmeistari í höggleik 17–18 ára

  • 75+ karlasveit GS – Íslandsmeistarar 2025


Kosningar og viðurkenningar


Á aðalfundinum voru veittar viðurkenningar:

  • Kylfingur ársins – konur: Fjóla Margrét

  • Kylfingur ársins – karlar: Logi Sigurðsson

  • Sjálfboðaliði ársins: John Steven Berry


Sveinn Björnsson var endurkjörinn formaður til eins árs.


Í stjórn til tveggja ára voru endurkjörin:

  • Karítas Sigurvinsdóttir

  • Ragnar Olsen

  • Örn Ævar Hjartarson


Stjórn GS 2025–2026 er þannig skipuð:Sveinn Björnsson (formaður), Guðrún Þorsteinsdóttir, Gunnar Ellert Geirsson, Vignir Elísson, Karítas Sigurvinsdóttir, Ragnar Olsen og Örn Ævar Hjartarson.


GS heldur áfram á braut stöðugrar uppbyggingar og umbóta og stefnir inn í árið 2026 með markvissri þróun á vellinum og aðstöðu, áframhaldandi fjárfestingum, sjálfbærniverkefnum og sterkri þjónustu við félagsmenn – og með sívaxandi samfélag í Leiru.


Stjórn og framkvæmdastjóri þakka félagsmönnum fyrir góða mætingu, málefnalegar umræður og jákvæðan anda á fundinum – og hlakka til nýs og spennandi golfárs á Hólmsvelli.


Skjöl og fylgigögn:


ree


 
 
 

Comments


bottom of page